Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Á Þingvöllum var Alþingi stofnað árið 930 og kom þar saman til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum Íslendinga. Þingvellir eru jafnframt náttúruundur á heimsvísu og þar er elsti þjóðgarður Íslendinga.
Fræðslumiðstöðin við Hakið er góður upphafsstaður gönguferðar um þingstaðinn forna en þar er margmiðlun notuð til að kynna sögu og náttúru svæðisins. Árið 2004 voru Þingvellir samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO.
Leiðsögn á ensku alla daga 1/6-1/9 kl.10:00. Lagt af stað frá kirkju.