Eldheimar
ELDHEIMAR er gosminjasýning. Sýningin miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973 þegar nær allir íbúar Heimaeyjar urðu að yfirgefa heimili sín í skyndi og flýja eyjuna. Margir sáu húsin sín sem og megnið af eigum sínum aldrei aftur. Hraun og aska eyðilögðu þriðjung byggðarinnar í Eyjum, eða tæplega 400 hús og byggingar. Miðpunktur sýningarinnar er húsið, sem stóð við Gerðisbraut 10. Húsið, sem grófst undir ösku í gosinu hefur nú verið grafið upp. Hægt er að sjá á áhrifamikinn hátt dæmi um hvernig náttúruhamfarirnar fóru með heimili fólks. Á sýningunni er einnig farið yfir þróun Surtseyjar sem reis úr hafi sunnan við Heimaey árið 1963. Eldgosið í Surtsey stóð yfir í nær 4 ár. Eftir gosið var Surtsey gerð að lokuðu nátturverndarsvæði sem gerði vísindaheiminum mögulegt að fylgjast með hvernig nýtt líf og vistkerfi verður til. Surtsey hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 2008.